Hugrekki

Hvers vegna eigum við að temja okkur hugrekki?

Hugrekki er besta vörnin sem við eigum gegn hræðslu og öryggisleysi. Við þurfum á hugrekki að halda þegar við reynum eitthvað nýtt, horfumst í augu við erfiðar aðstæður og þegar við þurfum að taka okkur á eftir að hafa gert mistök. Stundum efumst við um getu okkar, finnst við standa ein. Hugrekki hjálpar okkur að gera jafnvel stórkostlega hluti sem við vissum ekki að við gætum. Án hugrekkis gerum við einungis það sem er auðvelt og mundum ekki hafa kjark til að gera það sem virðist erfitt, jafnvel þó við vitum að það er rangt.

Hvernig temjum við okkur hugrekki?

Við gerum það sem er rétt, jafnvel þegar það er erfitt eða við óttumst það. Við horfumst í augu við mistök okkar með hugrekki, lærum af þeim og höldum áfram að reyna. Við reynum nýja hluti, jafnvel þótt okkur finnist þeir vera okkur ofviða. Þegar við hræðumst eitthvað gerum við okkur far um að greina hvort sú hræðsla sé á rökum reist eða hvort hún sé ástæðulaus. Gleymum því ekki að við getum alltaf beðið um hjálp ef við þörfnumst hennar.

Við stöndum fast á því sem við vitum að er rétt jafnvel þó að vinir okkar geri eitthvað rangt og vilji fá okkur með. Þegar við verðum hrædd skulum við viðurkenna það, taka ákvörðun um hvað skynsamlegast er að gera og halda áfram ef skynsemin segir okkur það. Þannig yfirvinnum við hræðsluna og öðlumst hugrekki.

Hvað er hugrekki?

Hugrekki er að hafa kjark til að mæta því sem við hræðumst og gera það sem er verulega erfitt. Stundum er hugrekki fólgið í því að vera staðfastur, hopa hvergi. Aftur á móti er það ekki hugrekki að taka ónauðsynlega áhættu einungis til að sýnast. Hugrekki er það sem við finnum í hjarta okkar fremur en það sem við hugsum. Það styrkist með sjálfsþekkingu/sjálfsvitund og kemur þegar við vitum innst inni að við getum eða verðum að gera eitthvað. Ást getur gefið okkur hugrekki. Hún gefur okkur styrk og hjálpar okkur að gera rétta hluti án þess að láta ótta stöðva okkur.

Prenta |