Í tilefni af þjóðhátíðardeginum fórum við í skrúðgöngu 16. júní. Við sungum mikið og gengum að skólalóðinni þar sem við lékum okkur í dágóða stund áður en við gengum aftur í leikskólann. :)
Útskrift 2015 árgangsins
Þann 15. júní var útskriftarhátíð fyrir elstu börnin. Hátíðin var haldin í Fram heimilinu og gátu foreldrar og systkini verið með. Börnin byrjuðu á því að syngja fyrir gesti tvö lög eftir Aðalstein Ásberg sem þau lærðu í tilefni Barnamenningahátíðar. Svo fóru þau með nokkrar vísur sem þau hafa lært í vetur og enduðu á því að dansa flottan dans og buðu svo foreldrum að dansa með. Virkilega flott og hæfileikarík börn.
Börnin settu svo upp útskriftarhatta og fengu afhent bók með listaverkum, vísum og öðrum verkefnum sem þau höfðu unnið í um veturinn. Eins kom foreldrafélagið með plöntur sem hvert barn fékk.
Svo var kaffi, djús og kaka í boði eftir herlegheitin. Hátíðin heppnaðist einstaklega vel og frábært að geta boðið foreldrum og systkinum að vera með.
Við óskum börnum og foreldrum góðs gengis með von um bjarta framtíð.
Þið eruð ávallt velkomin í heimsókn. :)
Sjá myndir með því að smella á ,,lesa meira".
Klifur
Öllum börnum finnst gaman að príla og klifra. Á útisvæðinu okkar er hægt að klifra upp í kastalann og upp á kofana í sandkastölunum. Það er regla hjá okkur að börnin þurfi að æfa sig til að geta klifrað sjálf upp, kennarar aðstoða ekki nema að standa hjá og leiðbeina.
Oft bregður fólki við þegar börn klifra og verða hrædd um að börnin detti og meiði sig. Það getur auðvitað gerst en ef við stöndum hjá og erum tilbúin að grípa inn í og aðstoða börnin þá ættu börnin að vera örugg.
Það er nefnilega margt sem að börnin græða á því að klifra. Að klifra eykur úthald, grófhreyfingar og þolinmæði. Börnin læra á líkama sinn og mörk, þau átta sig flest á því hversu langt þau komast svo þau þori að fara aftur niður. Börnin þurfa að leita lausna og finna út hvernig best sé að komast upp á topp eða þangað sem þau ætla sér.
Í byrjun þurfa börnin að æfa sig og það getur tekið á. Börnin verða stundum pirruð að geta ekki klifrað og biðja þá um að sér sé lyft upp en með því erum við ekki að gera þeim mikinn greiða. Börnin verða svo ánægð og stolt þegar þau loksins geta klifrað upp.
Karimarimambó
Elstu börnin í Álftaborg mynduðu kór í vetur og lærðu lög eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Þetta eru mjög skemmtileg lög með miklum texta og stóðu börnin sig einstaklega vel. Þetta er samstarfsverkefni á vegum Tónskóla Sigursveins og fjölda leikskóla á Reykjavíkursvæðinu og er þetta vanalega aratriði á opnunardegi Barnamenningarhátíð í Hörpu.
Í fyrra gátu börnin ekki tekið þátt út af covid og því var allt gert til þess að börnin gætu sungið lögin í ár. Það endaði með því að börnunum var skipt niður á 4 tónleika í ráðhúsi Reykjavíkur og var tónleikunum streymt til foreldra.
Börnin stóðu sig einstaklega vel og sýndu mikið hugrekki. Sumir voru feimnir að standa svona upp á kórpöllum fyrir framan áhorfendur en sungu samt og margir lifðu sig inn í tónlistina. Við kennararnir vorum virkilega stolt af börnunum okkar.